Nú er sveppatíminn í hámarki. Mörg langar að prófa að tína sveppi en hafa verið rög við það. Nú er tækifæri að skreppa í sveppamó með fagmann sér við hlið.
Útivist er með sveppaferð í Heiðmörk sunnudaginn 24 ágúst. Ferðin er í samstarfi við Útivist og Hið Íslenska Náttúrufræðifélag. Farið er á eigin bílum og hist kl. 11 á bílastæðinu við Furulund í Heiðmörk undir leiðsögn sem varir til klukkan 14.
Munið að vera vel útbúin til útiverunnar. Um að gera að koma með körfur undir sveppina og lítinn hníf.
Það er frítt í ferðina og öll velkomin. Hægt er að skrá sig í ferðina og bjóða öðrum á Facebook-viðburði ferðarinnar.
Fjöldi sveppategunda á Íslandi er nokkuð á reiki. Vitað er að milli 2.000-3.000 tegundir eiginlegra sveppa lifa á Íslandi, þar af eru rúmlega 500 tegundir hattsveppa.
Til viðbótar eru rúmlega 700 tegundir fléttna á Íslandi, en fléttur eru sveppir sem geta ljóstillífað fyrir tilstilli blágrænna baktería og/eða þörunga sem lifa inni í vefjum sveppsins.
Töluvert verk er óunnið við að skrásetja þær tegundir sem finnast á Íslandi en Náttúrufræðistofnun vinnur nú að lista yfir allar tegundir sveppa sem fundist hafa á Íslandi, líklega um 3.000 talsins.
Annað mál er að giska á hversu margir sveppir hafa ekki fundist en lifa þó á Íslandi. Talið er að um 2,5 milljónir sveppategunda finnist í heiminum en aðeins 155.000 tegundum eru þekktar. Það þýðir að aðeins er búið að lýsa rúmlega 6% sveppategunda heimsins. Ef sú tölfræði er yfirfærð á sveppi á Íslandi væri hér að finna tæplega 50.000 tegundir sveppa.
Í vetur hefur áður ófundin tegund hlaupkennds svepps fundist á Íslandi. Sveppurinn, Exidia recisa, vex innan í dauðum greinum víðirunna en aldin sveppsins spretta út úr þeim þegar þau eru tilbúin að þroskast.
Ekki er komið íslenskt nafn á sveppinn en lagt er til að hann verði kallaður „víðibólstur“ til samræmis við nafn hans nánast ættingja hér á landi, „birkibólstur“ (Exidia repanda).
Tveir fundarstaðir sveppsins hafa þegar verið staðfestir. Annar er við Álftavatn í Grímsnes- og Grafningshreppi en myndin hér til hliðar er af víðibólstri sem fannst þar í vetur. Hinn fundarstaðurinn er við Rauðavatn við Reykjavík. Líklegt er að fleiri fundarstaðir uppgötvist á næstunni.
Þekkja má víðibólstur á því að það myndar brúnar, hlaupkenndar skálar, diska eða fellingar sem standa út úr berki víðirunna og vaxa oft í mörgum eintökum á sama runna. Sveppurinn sést best þegar það er rakt eða í vetrarstillum en skreppur mikið saman í þurrki og sést þá illa.
Sveppafélagið hvetur fólk til að hafa samband, telji það sig hafa fundið víðibólstur. Við skráningu fundarstaðar er aðalatriði að skrá nákvæm hnit, til dæmis í gegnum Google Maps eða iNaturalist, og taka myndir af sveppnum og runnanum sem hann vex á.
Sveppafélagið var stofnað í þeim tilgangi að vera umboðmaður og bakhjarl sveppa. Það felur í sér að tala máli sveppa, styðja við sjálfbæra nýtingu þeirra, auka við þekkingu á sveppum og vernda þá.
Félagið mun stunda- og styðja við rannsóknir á sveppum eftir því sem unnt er. Félagið mun einnig beita sér fyrir því að efla sveppasamfélagið á Íslandi, hvort sem er meðal almennings, áhugafólks eða fagfólks. Í því felst meðal annars að sinna fræðslu, námskeiðahaldi og kennslu en einnig að vera félagsskapur fyrir sveppaunnendur.
Sveppafélagið veitir faglega ráðgjöf um málefni sveppa og um málefni umhverfis þeirra, til dæmis varðandi skilvirkar leiðir til verndunar sveppa, við gerð umhverfismats, kennsluefnis og við undirbúning rannsókn.
Aðstandendur Sveppafélagsins vona að félagið komi til með að vernda og efla sveppi, umræðu um sveppi og þekkingu á sveppum í sínum víðasta skilningi. Stefnt er að því að félagið verði virkur þátttakandi í umhverfismálum, skipulagsmálum, viðskiptum og daglegri umræðu sem tengist sveppum og umhverfi þeirra.